Skip Navigation

Advanz Pharma semur við Alvotech um markaðssetningu í Evrópu á hliðstæðu við líftæknilyfið Cimzia

Business
01 July 2025

Alvotech (NASDAQ: ALVO) og Advanz Pharma tilkynntu í dag að félögin hafi gert með sér samning um markaðssetningu AVT10 í Evrópu. AVT10 er hliðstæða við líftæknilyfið Cimzia (certolizumab pegol) sem þróun stendur yfir á hjá Alvotech. Alþjóðlega lyfjafyrirtækið Advanz Pharma er með höfuðstöðvar í Bretlandi og markaðssetur lyfseðilsskyld lyf, stungu- og innrennslislyf og lyf við sjaldgæfum sjúkdómum.

Við erum eina fyrirtækið sem vinnur að þróun hliðstæðu við Cimzia, samkvæmt opinberum heimildum. Frumlyfið hefur náð umtalsverðri markaðshlutdeild í flokki gigtarlyfja, sérstaklega fyrir konur á barneignaraldri. Það er okkur mikil ánægja að Advanz Pharma hafi sóst eftir því að fá að markaðssetja þessa hliðstæðu sem bætist við stórt safn lyfja sem félögin eiga í samstarfi um.

Róbert Wessman

Stjórnarformaður og forstjóri Alvotech

Þessi nýi samningur styrkir enn samstarfið við Alvotech og styður við markmið okkar sem er aukið aðgengi evrópskra sjúklinga að líftæknilyfjum í hæsta gæðaflokki. Fyrirhuguð hliðstæða við Cimzia er verðmæt viðbót við það stóra safn líftæknilyfja sem við ætlum að setja á markað á næstu árum.

Steffen Wagner

Forstjóri Advanz Pharma

Certolizumab pegol er líftæknilyf sem inniheldur einstofna mannamótefni sem hamlar virkni frumboðefnisins tumor necrosis factor alpha (TNF-alpha). Lyfið er notað til meðferðar við ýmsum bólgusjúkdómum á borð við liðagigt. Nýlegar klínískar rannsóknir á frumlyfinu sýna að það berst ekki frá móður til fósturs á meðgöngu eða með móðurmjólkinni. Heildartekjur af sölu Cimzia á síðasta ári voru um 280 milljarðar króna (2,3 milljarðar bandaríkjadala) samkvæmt upplýsingum frá gagnaveitunni Global Data.

Alvotech og Advanz Pharma hafa áður samið um þróun, framleiðslu og markaðssetningu fyrirhugaðra hliðstæða við meira en tíu mismunandi líftæknilyf. Félögin gera ráð fyrir að hefja sölu á fyrstu hliðstæðunum þegar á síðasta fjórðungi ársins.

Notkun vörumerkja

Cimzia er skráð vörumerki UCB Pharma S.A.