Skip Navigation

Alvotech gengur frá um 10 milljarða króna skuldabréfafjármögnun

Business
16 December 2022

Alvotech (NASDAQ: ALVO) tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði gengið frá fjármögnun að fjárhæð um 10 milljarðar króna (u.þ.b. 70 milljónir Bandaríkjadala), miðað við núverandi gengi, í tveimur flokkum (flokkur A og flokkur B) í formi víkjandi skuldabréfa með breytirétti í almenn hlutabréf í Alvotech. 

Alvotech ætlar að nýta stærstan hluta fjármögnunarinnar til að gera upp um 7,1 milljarðs króna víkjandi lán (50 milljónir Bandaríkjadala) frá Alvogen, sem tilkynnt var um 16. nóvember sl. Í samræmi við skilmála Alvogen lánsins, falla áskriftarréttindi lánveitandans að 4% almennra hluta í Alvotech því niður.

Alvotech mun gefa út skuldabréf til 36 mánaða að heildarfjárhæð um 10 milljarðar króna, miðað við núverandi gengi, í formi víkjandi skuldabréfa með breytirétti yfir í almenn hlutabréf. Flokkur A er gefinn út í íslenskum krónum og ber 15% vexti á ársgrundvelli, sem bætast við höfuðstólinn á hverjum gjalddaga og ávaxtast (s.n. PIK vextir) en flokkur B er gefinn út í Bandaríkjadölum og ber 12,5% PIK vexti á ári.

Eigendur skuldabréfanna (fyrir bæði flokk A og flokk B) hafa rétt til þess að breyta upprunalegum höfuðstól auk áfallinna vaxta og ávöxtunar að hluta eða öllu leyti í almenn hlutabréf í Alvotech á föstu gengi, sem er 10 Bandaríkjadalir á hlut. Breytiréttinn má nýta að hluta eða öllu leyti þann 31. desember 2023 eða 30. júní 2024.  

Ráðgjafar Alvotech við útgáfuna voru Acro verðbréf, Arctica Finance, Arion banki og Landsbankinn.