Skip Navigation

Alvotech kaupir alla starfsemi Ivers-Lee

Business
09 July 2025

-        Ivers-Lee er rótgróið fjölskyldufyrirtæki með höfuðstöðvar í Sviss og útibú í Þýskalandi

-        Með kaupunum býr Alvotech sig undir vöxt eftirspurnar og eykur afköst í samsetningu og pökkun

Alvotech (NASDAQ: ALVO) hefur keypt allan rekstur og aðstöðu Ivers-Lee í Burgdorf í Sviss. Ivers-Lee sérhæfir sig í þjónustu við lyfjaiðnaðinn og hefur áratugareynslu af hágæðasamsetningu og -pökkun lyfja. Fyrirtækið verður framvegis rekið sem deild innan framleiðslusviðs Alvotech. Með kaupunum býr Alvotech sig undir mikinn vöxt eftirspurnar ásamt því að auka afköst í framleiðslu og sveigjanleika.

Ivers-Lee hefur veitt Alvotech mikilvæga þjónustu undanfarin ár. Stjórnendur fyrirtækjanna þekkjast því orðið vel eftir náið og farsælt samstarf. Við erum að búa okkur undir að setja þrjár nýjar hliðstæður á markað seinni part ársins og sala fer vaxandi á mörkuðum okkar um allan heim. Með því að samþætta rekstur Ivers-Lee og framleiðslusviðs Alvotech getum við brugðist hraðar við vexti eftirspurnar. Markmiðið er að tryggja viðskiptavinum okkar ávallt hámarksgæði og afburðaþjónustu.

Róbert Wessman

Stjórnarformaður og forstjóri Alvotech

Ivers-Lee er rótgróið fjölskyldufyrirtæki stofnað í Burgdorf í Sviss árið 1947. Fyrirtækið hefur frá stofnun séð um pökkun fyrir fjölmörg stærstu lyfjafyrirtæki heims. Ivers-Lee starfrækir einnig útibú í Lörrach í Þýskalandi. Framkvæmdastjóri Ivers-Lee, Peter Schüpbach, alnafni og barnabarn stofnanda félagsins, mun halda áfram að stýra rekstrinum og verður hluti af stjórnendateymi framleiðslusviðs Alvotech.

Alvotech veitir Ivers-Lee aukinn fjárhagslegan styrk og tækifæri til að þróast á vaxandi markaði. Breytingin mun leiða til aukins stöðugleika fyrir starfsfólk og rekstur félagsins.

Peter Schüpbach

Framkvæmdastjóri Ivers-Lee

Framleiðslueiningin í Burgdorf er með alþjóðlega GMP-vottun fyrir lyfjaframleiðslu og framleiðsluleyfi fyrir Bandaríkjamarkað frá Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA). Meðal þeirrar þjónustu sem Ivers-Lee hefur veitt Alvotech er pökkun fullbúinna vara og samsetning á lyfjapennum og áfylltum sprautum. Ivers-Lee hefur unnið fyrir breiðan hóp viðskiptavina og mun halda áfram að sinna margvíslegum verkefnum fyrir önnur lyfjafyrirtæki.