Skip Navigation

Alvotech lýkur lokuðu skuldabréfaútboði að andvirði 100 milljónir dollara

Business
31 July 2023

Alvotech (NASDAQ: ALVO) tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði selt breytanleg skuldabréf að andvirði 100 milljónir Bandaríkjadala, um 13,2 milljarðar króna miðað við núverandi gengi, í lokuðu útboði til hæfra fjárfesta á Íslandi. Skuldabréfin eru gefin út í íslenskum krónum og Bandaríkjadollar. Alvotech gerir ráð fyrir að nota féð til áframhaldandi þróunar á líftæknilyfjahliðstæðum.

Samkvæmt samningi félagsins við ATP Holdings ehf., félags tengt Aztiq Pharma Partners S.a. r.l. sem er stærsti hluthafi Alvotech, var ATP Holdings ehf. skuldbundið til að kaupa öll skuldabréf í útboðinu sem ekki yrðu seld öðrum fjárfestum samkvæmt gildandi tilboðum, allt að andvirði 100 milljóna dollara. Tilboð bárust frá hæfum fjárfestum í skuldabréf að andvirði um 70,1 milljón dollara (9,2 milljarðar króna á núverandi gengi) og fjárfestir ATP Holdings ehf. í þeim skuldabréfum sem eftir standa. Uppgjör viðskiptanna er áætlað 11. ágúst nk.

Alvotech mun gefa út skuldabréf með lokagjalddaga 20. desember 2025, í áður útgefnum flokki með útgáfudag 20. desember 2022.  Skuldabréf í íslenskum krónum eru skráð til viðskipta á Nasdaq First North Growth markaðnum.  Eigendur skuldabréfanna hafa rétt til þess að breyta upprunalegum höfuðstól auk áfallinna vaxta og ávöxtunar, að hluta eða öllu leyti, í almenn hlutabréf í Alvotech á föstu gengi, sem er 10 dollarar á hlut. Breytiréttinn má nýta að hluta eða öllu leyti þann 31. desember nk. eða 30. júní 2024.  

Ráðgjafar Alvotech við útgáfuna voru Acro verðbréf og fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans.