Skip Navigation

Alvotech og Advanz Pharma undirrita samning um markaðssetningu í Evrópu á fyrirhugaðri líftæknilyfjahliðstæðu við Eylea

Business
18 June 2024
  • Advanz Pharma fær rétt til markaðssetningar fyrirhugaðrar líftæknilyfjahliðstæðu við Eylea í Evrópu, en Alvotech þróar nú tvær útgáfur lyfsins
  • Advanz Pharma mun nýta þekkingu á markaðssetningu lyfseðilsskyldra lyfja, stungu- og innrennslislyfja til þess að tryggja markaðsleyfi og aðgengi sjúklinga

Alvotech (NASDAQ: ALVO) og Advanz Pharma, alþjóðlegt lyfjafyrirtæki með höfuðstöðvar í Bretlandi, sem markaðssetur lyfseðilsskyld lyf, stungu- og innrennslislyf og lyf við sjaldgæfum sjúkdómum, tilkynntu í dag að félögin hafi undirritað nýjan samning um framleiðslu og markaðssetningu fyrirhugaðrar líftæknilyfjahliðstæðu Alvotech við Eylea (aflibercept). Alvotech þróar nú AVT06, sem er fyrirhuguð hliðstæða við Eylea í lágum skammti (2 mg) og AVT29 sem er fyrirhuguð hliðstæða við Eylea í háum skammti (8 mg).

Eylea (aflibercept) er líftæknilyf sem notað er til meðferðar við augnsjúkdómum sem geta leitt til sjóntaps eða blindu, svo sem votri augnbotnahrörnun, sjóndepilsbjúgi og sjónukvilla af völdum sykursýki. Á árinu 2023 námu tekjur af sölu Eylea í Evrópu um 2,9 milljörðum Bandaríkjadala (407 milljörðum króna) samkvæmt upplýsingum frá gagnaveitunni IQVIA.

Samkvæmt samkomulaginu mun Alvotech bera ábyrgð á þróun og framleiðslu á AVT06 og AVT29, en Advanz Pharma verður ábyrgt fyrir því að tryggja markaðsleyfi og sér um sölu og markaðssetningu. Advanz Pharma fer með einkarétt til sölu í Evrópu, að frátöldu Þýskalandi og Frakklandi þar sem félagið fer með sameiginlegan rétt. Samningurinn felur í sér fyrirframgreiðslu til Alvotech og áfangagreiðslur sem tengdar eru árangri í þróun og sölu lyfjanna.

Við metum mikils vaxandi samstarf okkar við Advanz Pharma, sem hófst snemma á síðasta ári og hefur nú verið útvíkkað og nær alls til sjö fyrirhugaðra líftæknilyfjahliðstæða. Við eigum það sameiginlegt að hafa óbilandi trú á vexti markaðarins fyrir líftæknilyfjahliðstæður og að leggja þunga áherslu á að auka aðgengi sjúklinga að hagkvæmari líftæknilyfjum.

Anil Okay

Framkvæmdastjóri viðskipta hjá Alvotech

Við erum spennt að treysta enn sambandið við Alvotech með þessari mikilvægu viðbót. Samstarf okkar dregur fram einstaka styrkleika hvors aðila fyrir sig og undirstrikar að Advanz Pharma er kjörinn samstarfsaðili til markaðssetningar lyfseðilsskyldra lyfja í Evrópu.

Susanna El-Armale

Framkvæmdastjóri viðskiptaþróunarsviðs Advanz Pharma

Í janúar sl. kynnti Alvotech jákvæðar niðurstöður rannsóknar sem sýndu sambærilega klíníska virkni, öryggi og ónæmingarverkun AVT06 og samanburðarlyfsins Eylea, í sjúklingum með aldurstengda vota augnbotnahrörnun (AMD). Aðalendapunktur rannsóknarinnar var uppfylltur.

Í febrúar 2023 tilkynntu Alvotech og Advanz Pharma að félögin hefðu gert samning um markaðssetningu AVT23, fyrirhugaðrar líftæknilyfjahliðstæðu við Xolair (omalizumab). Samningurinn nær yfir Evrópska efnahagssvæðið, Bretland, Sviss, Kanada, Ástralíu og Nýja Sjáland. Í maí 2023 tilkynntu félögin svo að samstarf þeirra hefði verið útvíkkað og næði nú einnig til fyrirhugaðra hliðstæða við Simponi (golimumab) og Entyvio (vedolizumab), auk þriggja ónefndra fyrirhugaðra hliðstæða á fyrri stigum þróunar.

Um AVT06/AVT29 (aflibercept)

AVT06/AVT29 er raðbrigða samrunaprótein og fyrirhuguð líftæknilyfjahliðstæða við Eylea (aflibercept). Aflibercept binst æðaþelsvaxtarþáttum (Vascular Endothelial Growth Factors; VEGF) og getur þannig hamlað bindingu og virkjun VEGF viðtaka, nýæðamyndun og æðagegndræpi [1]. AVT06/AVT29 er lyf í þróun og hefur ekki verið samþykkt til notkunar á neinu markaðssvæði. Þá liggur niðurstaða eftirlitsaðila ekki fyrir um notkun lyfsins sem líftæknilyfjahliðstæðu.

Heimildir

[1] https://www.ema.europa.eu/is/documents/product-information/eylea-epar-product-information_is.pdf

Notkun vörumerkja

Eylea er skráð vörumerki Bayer AG í Evrópu