Skip Navigation

Alvotech og JAMP Pharma fjölga samstarfsverkefnum til að bæta aðgengi að líftæknilyfjum í Kanada

Business
19 October 2022
  • Tveimur fyrirhuguðum líftæknilyfjahliðstæðum Alvotech fyrir sjúklinga með sjálfsofnæmissjúkdóma og krabbamein er bætt við samstarfssamninginn

Alvotech (NASDAQ First North: ALVO) og JAMP Pharma Group (JAMP Pharma), kanadískt lyfjafyrirtæki með höfuðstöðvar í Montreal, tilkynntu í dag að þau hafi gert samkomulag um að bæta tveimur nýjum fyrirhuguðum líftæknilyfjahliðstæðum Alvotech við núverandi samstarf: AVT16, líftæknilyfjahliðstæðu fyrir sjúklinga með sjálfsofnæmissjúkdóma og AVT33, líftæknilyfjahliðstæðu fyrir sjúklinga með krabbamein.

Við erum afar ánægð að fjölga verkefnum í samstarfinu við Alvotech, til þess að geta fært sjúklingum í Kanada fleiri ódýrari líftæknilyf. Við höfum þegar hafið sölu og markaðssetningu á Simlandi, líftæknilyfjahliðstæðu við Humira og munum halda áfram að efla þjónustu okkar við sjúklinga og meðferðaraðila þeirra í gegnum BIOJAMP og JAMP Care.

Louis Pilon

Forstjóri JAMP Pharma Group.

Samstarfið við JAMP Pharma getur gert okkur kleift að ná forystu á markaði fyrir líftæknilyfjahliðstæður í Kanada. Markmið okkar er að auðvelda og auka aðgengi að líftæknilyfjahliðstæðum fyrir sjúklinga um allan heim.

Róbert Wessman

Stofnandi og starfandi stjórnarformaður Alvotech

Alvotech mun annast þróun og framleiðslu líftæknilyfjahliðstæðanna. Í skiptum fyrir áfangagreiðslur og hluta af framtíðarsölutekjum, fær JAMP Pharma einkaleyfi til að selja og markaðssetja tiltekin lyf Alvotech í Kanada og nýtir til þess öflugt sölunet og markaðsreynslu, en eftirspurn eftir líftæknilyfjahliðstæðum í Kanada fer ört vaxandi.

JAMP Pharma tilkynnti í febrúar s.l. um stofnun BIOJAMP, sem ætlað er að festa fyrirtækið í sessi sem leiðandi aðili á markaði fyrir líftæknilyfjahliðstæður í Kanada. BIOJAMP og JAMP Care bjóða upp á þjónustu við sjúklinga og meðferðaraðila, til þess að auðvelda þeim að skipta yfir í líftæknilyfjahliðstæður, sem eru ódýrari en sambærileg líftæknilyf.     

Um Simlandi™ (adalimumab)

Simlandi™ er einstofna mótefni og líftæknilyfjahliðstæða við Humira® (adalimumab). Simlandi hefur hlotið markaðsleyfi í Kanada. Sama líftæknilyfjahliðstæða hefur einnig hlotið markaðsleyfi í Evrópusambandinu, Noregi, Lichtenstein, á Íslandi, í Bretlandi og Sviss (undir heitinu Hukyndra®). Umsóknir um markaðsleyfi eru til umfjöllunar í mörgum löndum, þar á meðal í Bandaríkjunum. 

Um JAMP Pharma Group

JAMP Pharma Group, sem stofnað var fyrir 34 árum, er kanadískt fyrirtæki í einkaeigu og eru  höfuðstöðvar þess í Montreal. Fyrirtækið starfar á öllum sviðum lyfjaiðnaðarins, frumlyfja (Orimed Pharma), samheitalyfja og líftæknilyfjahliðstæða (JAMP Pharma), náttúruvara (Wampole og Laboratoire Suisse) og snyrtivara (Cosmetic Import Ltd). Eftir öran vöxt undanfarin 10 ár býður JAMP Pharma nú upp á 300 mismunandi lyf og 180 náttúru- og snyrtivörur. JAMP Pharma leiðir lyfjamarkað í Kanada með tilliti til sölu og framboðs nýrra lyfja. Nýlega hleypti fyrirtækið af stokkunum deild sem einbeitir sér að markaðssetningu líftæknilyfjahliðstæða, BIOJAMP. Frekari upplýsingar er að finna á slóðinni www.jamppharma.ca/en/