Skip Navigation

Alvotech og STADA tilbúin að setja HUKYNDRA® (AVT02) á markað eftir að hafa leyst úr öllum ágreiningi við AbbVie um einkaleyfi í Evrópu.

Business
06 April 2022

·       HUKYNDRA® verður annað tveggja adalimumab líftæknihliðstæðulyfja á Evrópumarkaði sem eru í sítratlausri samsetningu og háum styrk.

·       Fyrirtækin hafa nú samið um úrlausn á öllum ágreiningi vegna lyfjahugvits fyrir markaðssetningu á AVT02 (adalimumab) frá Alvotech í Bandaríkjunum og Evrópu.

Alvotech Holdings S.A. („Alvotech“) tilkynnti í dag að samkomulag hefði náðst við AbbVie um úrlausn alls ágreinings varðandi einkaleyfi í Evrópu og á nokkrum mörkuðum utan Evrópu, vegna AVT02, líftæknihliðstæðulyfs Alvotech við Humira® (adalimumab), í háum styrk (100 mg/mL). Með þessu getur alþjóðlega lyfjafyrirtækið STADA Arzneimittel AG („STADA“), sem er samstarfsaðili Alvotech við dreifingu og markaðssetningu lyfsins, hafið markaðssetningu AVT02 í Evrópu.

Með samkomulaginu fær Alvotech fullt almennt leyfi gegn þóknun til afnota af öllu lyfjahugviti AbbVie sem tengist Humira® í Evrópu og á völdum markaðssvæðum utan Evrópu. Með samkomulaginu er því lagður grunnur að betra aðgengi sjúklinga að adalimumab.

Þetta samkomulag er mikilvægt skref í stefnu Alvotech, sem er að veita sjúklingum aukið aðgengi að hagkvæmari heilbrigðisþjónustu og mæta þar með betur þörfum þeirra. Við fögnum því að geta sett á markað fyrsta líftæknihliðstæðulyf Alvotech í Evrópu, í samstarfi við STADA.

Róbert Wessman

Stofnandi og stjórnarformaður Alvotech

Þar sem hindrunum vegna ágreinings um markaðsaðgengi hefur nú verið rutt úr vegi, hefur STADA hafið undirbúning að því að bjóða HUKYNDRA á mörkuðum um alla Evrópu. STADA hefur samið um einkarétt við Alvotech á markaðssetningu AVT02 í Evrópu og á völdum mörkuðum utan Evrópu.

HUKYNDRA verður aðeins fyrst í röðinni af úrvali nýrra líftæknihliðstæðulyfja til meðhöndlunar á margvíslegum sjúkdómum í samstarfi okkar við Alvotech. Markmið okkar er að vinna með samstarfsaðilum okkar að því að auka samkeppni í líftæknilyfjageiranum, til þess að auka aðgengi sjúklinga og gæði þjónustunnar við þá.

Peter Goldschmidt

Forstjóri STADA

HUKYNDRA verður fyrsta líftæknihliðstæðulyfið af sjö sem markaðssett verður samkvæmt samkomulagi sem Alvotech og STADA undirrituðu í nóvember 2019. Samstarf fyrirtækjanna nær til líftæknihliðstæðulyfja við sjálfsofnæmissjúkdómum, krabbameini og augnsjúkdómum.

Í desember 2021 tilkynntu samstarfsaðilarnir að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefði veitt samþykki fyrir AVT02 (adalimumab), líftæknihliðstæðulyfi Alvotech við Humira® (100 mg/mL). Þetta samþykki gildir fyrir öll 27 aðildarlönd ESB auk Noregs, Íslands og Liechtenstein.

Alvotech tilkynnti í febrúar sl. að bandaríska lyfjaeftirlitið (FDA) hefði samþykkt að taka umsókn fyrirtækisins fyrir AVT02 (100 mg/mL) til greina. Umsóknin inniheldur meðal annars ný gögn til stuðnings útskiptanleika AVT02 og HUMIRA, fyrir Bandaríkjamarkað. Þau byggja á jákvæðum niðurstöðum úr rannsókn þar sem sýnt var fram á að út frá virkni, öryggi og ónæmissvörun eru Humira® og AVT02 fyllilega jafngild í sjúklingum sem skipta endurtekið milli lyfjanna tveggja.

Um Alvotech

Alvotech, stofnað af Róberti Wessman, stjórnarformanni fyrirtækisins, er líftæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech var stofnað árið 2013 og hefur það að markmiði að verða leiðandi í framleiðslu og dreifingu líftæknihliðstæðulyfja. Allir þættir í framleiðslunni eru í höndum fyrirtækisins sjálfs til að tryggja hámarksgæði. Höfuðstöðvar og hátæknisetur Alvotech, sem staðsett er í Vísindagörðum Háskóla Íslands í Vatnsmýri, eru búin fullkomnustu tækjum og búnaði til þróunar og framleiðslu líftæknilyfja.