Alvotech (NASDAQ: ALVO, ALVO SDB) hefur skipað Lindu Jónsdóttur í stöðu framkvæmdastjóra fjármálasviðs. Linda er reyndur alþjóðlegur stjórnandi á sviði rekstrar og fjármála. Hún hefur áður gengt leiðtogastöðum í fyrirtækjum sem starfa á sviði iðnaðar, fjármála, flutningastarfsemi og heilbrigðismála. Joel Morales sem verið hefur framkvæmdastjóri fjármálasviðs Alvotech frá árinu 2020, með aðsetur í Bandaríkjunum, hefur ákveðið að láta af störfum til þess að setja fjölskylduna sína í forgang og verja meiri tíma á heimaslóð. Hann verður áfram ráðgjafi félagsins og til aðstoðar á næstu vikum við yfirfærslu verkefna.
Linda gegndi í 15 ár ábyrgðarstöðum fyrir Marel, þar á meðal sem forstöðumaður fjárstýringar og fjárfestatengsla, framkvæmdastjóri fjármálasviðs og framkvæmdastjóri rekstrarsviðs. Hún lét af störfum hjá Marel á síðasta ári. Linda er stjórnarformaður Íslandsbanka, sat í stjórn Viðskiptaráðs og starfaði hjá Sidekick Health, Eimskip, Burðarási og Straumi fjárfestingabanka.
Ég vil bjóða Lindu hjartanlega velkomna í framkvæmdastjórn Alvotech. Hún er með mikla leiðtogareynslu og hefur þegar stýrt fjármálum og rekstri félags með tvískráningu. Við fögnum því að fá Lindu til liðs við okkur til að taka þátt í þeim mikla vexti Alvotech sem framundan er. Fyrir hönd Alvotech vil ég færa Joel innilegar þakkir fyrir framlag hans til félagsins undanfarin ár. Á þessu tímabili breyttist Alvotech úr óskráðu í skráð félag, byrjaði að skila hagnaði og er nú á góðri leið með að vera leiðandi fyrirtæki alþjóðlega í rannsóknum, þróun, framleiðslu og markaðssetningu á líftæknilyfjahliðstæðum.
Það er mér mikil ánægja að ganga til liðs við Alvotech, sem er einstakt fyrirtæki á Íslandi og leiðandi í sínum geira. Það hefur verið gaman að fylgjast með magnaðri uppbyggingu undanfarin ár og framundan eru ekki síður spennandi tímar. Ég er full tilhlökkunar að kynnast nýju samstarfsfólki og vinna með þessu einvala liði að vexti og viðgangi félagsins.
Ég vil þakka öllum samstarfsfélögum mínum og ekki síst Róberti fyrir að hafa fengið að taka þátt í þessu mikla ævintýri. Við höfum náð frábærum árangri og Alvotech er vel í stakk búið fyrir framtíðarvöxt. Ég hlakka til þess að halda áfram að aðstoða félagið, færa verkefnin á nýjar hendur og undirbúa uppgjörsfundinn í næsta mánuði. Að sjálfsögðu verð ég áfram einarður stuðningsmaður og stoltur hluthafi í Alvotech.