Skip Navigation

Alvotech og STADA útvíkka samstarf sitt með nýjum samningi um AVT03, fyrirhugaða hliðstæðu við Prolia og Xgeva

Business
11 June 2024

Alvotech (NASDAQ: ALVO) og  STADA tilkynntu í dag að fyrirtækin hafi útvíkkað samstarf sitt með samningi um markaðssetningu AVT03, fyrirhugaðrar líftæknilyfjahliðstæðu við Prolia og Xgeva (denosumab) sem er nú á lokastigi klínískra rannsókna. Frumlyfin eru annars vegar notuð til meðferðar við beinþynningu og hins vegar við sjúkdómum í beinum sem tengjast krabbameini.

Samkvæmt samningnum sér Alvotech um alla þróun og framleiðslu, en STADA fær rétt til sölu og markaðssetningar. STADA fer með sameiginlegan rétt á Evrópska efnahagssvæðinu og í Bretlandi, en einkarétt í nokkrum Mið-Asíuríkjum og Mið-Austurlöndum.

Samhliða samningnum um AVT03 hafa samstarfsaðilarnir ákveðið að útvíkka réttindi STADA til sölu og markaðssetningar á líftæknilyfjahliðstæðum Alvotech við Humira (adalimumab) og Stelara (ustekinumab). Þau ná nú einnig til nokkurra Mið-Asíuríkja. Þá endurheimtir Alvotech réttindi til sölu og markaðssetningar á AVT06, fyrirhugaðri líftæknilyfjahliðstæðu við Eylea (aflibercept).

Þar sem STADA er leiðandi í sölu lyfja gegn beinþynningu, sjáum við mikil tækifæri í að bjóða sjúklingum og meðferðaraðilum upp á aukin úrræði með þessari fyrirhuguðu hliðstæðu við Prolia og Xgeva. Þar sem við erum þegar með sterka markaðshlutdeild í líftæknilyfjahliðstæðum sem notaðar eru til meðferðar við krabbameini, mun þetta aukna samstarf við Alvotech gera okkur kleift að nýta betur stöðu okkar á þessum markaði.

Bryan Kim

Yfirmaður fjadeildar STADA

Við hlökkum til þess að vinna með STADA að því að bæta aðgengi sjúklinga að hliðstæðu við Prolia og Xgeva, eins og við höfum þegar gert með hliðstæðu okkar við Humira. Aukið samstarf félaganna sýnir glögglega sérstöðu Alvotech sem er byggð á sérhæfingu og fullkominni aðstöðu til þróunar og framleiðslu líftæknilyfjahliðstæða.

Anil Okay

Framkvæmdastjóri viðskipta hjá Alvotech

AVT03 er einstofna mótefni og fyrirhuguð líftæknilyfjahliðstæða við Prolia og Xgeva sem bæði innihalda denosumab. Denosumab beinist að og binst með mikilli sækni og sértækni við RANKL og kemur í veg fyrir virkjun viðtaka hans, svokallað RANK. Fyrirbygging RANKL/RANK tengingarinnar minnkar endurupptöku beina og beineyðingu af völdum krabbameins. AVT03 er líftæknilyfjahliðstæða í þróun og hefur ekki verið samþykkt til notkunar á neinu markaðssvæði. 

Áætlað er að 32 milljónir Evrópubúa, eða tæp 6% íbúa álfunnar sem náð hafa 50 ára aldri, hafi verið með einkenni beinþynningar á árinu 2019, samkvæmt nýjustu gögnum International Osteoporosis Foundation (IOF), samtaka sem beita sér fyrir bættum hag sjúklinga með beinþynningu. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem greindust með einkenni beinþynningar, eða fjórir af hverjum fimm einstaklingum, sem eru 25,5 milljón manns, voru kvenkyns. IOF áætlar að beinn kostnaður á árinu 2019 vegna beinbrota sem rekja má til beinþynningar hafi samanlagt numið um 8.500 milljörðum króna (56,9 milljörðum evra) í Evrópusambandsríkjunum, Sviss og Bretlandi.