Skip Navigation

Alvotech skipar nýjan framkvæmdastjóra gæðamála

Business
29 February 2024

Alvotech (NASDAQ: ALVO) tilkynnti í dag að Christina Siniscalchi hafi verið skipuð tímabundið í stöðu framkvæmdastjóra gæðamála. Christina tekur við af Söndru Casaca, sem lætur af starfi sem liður í frekari skipulagsbreytingum sem taka gildi nú um mánaðamótin. Christina Siniscalchi hefur undanfarin rúman áratug gengt ýmsum stjórnunarstöðum á sviði gæðamála hjá Alvogen. Hún er nú framkvæmdastjóri gæðamála Alvogen.

Við þökkum Söndru fyrir frábært framlag. Hún átti þátt í farsælli niðurstöðu úttektar Matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna (FDA) á framleiðsluaðstöðunni í Reykjavík, sem leiddi nýlega til samþykkis fyrir líftæknilyfjahliðstæðu okkar við Humira í Bandaríkjunum. Christina er öllum hnútum kunnug, þar sem hún býr að víðtækri reynslu á sviði lyfjaframleiðslu og þekkingu á regluverki iðnaðarins, eftir langt og farsælt starf fyrir systurfélag okkar, Alvogen. Það er fagnaðarefni að fá Christinu til liðs við okkur á þessum tímapunkti. Við vinnum nú hörðum höndum að því að auka framleiðslugetuna, til að styðja við vaxandi sókn á alþjóðlega markaði. Þungamiðja starfsins er áhersla á stöðugar úrbætur, öguð vinnubrögð, hámarks gæði og að uppylla jafnan ströngustu kröfur sem gerðar eru til framleiðslu líftæknilyfja.

Róbert Wessman

Stjórnarformaður og forstjóri Alvotech

Christina Siniscalchi hefur starfað í bandaríska lyfjaiðnaðinum í aldarfjórðung. Áður en hún gekk til liðs við Norwich Pharmaceuticals, sem nú er hluti af Alvogen, vann hún hjá Mallinckrodt Pharmaceuticals. Hún er með meistaragráðu í lyfjaeftirlits- og gæðamálum frá Temple háskólanum í Fíladelfíu, Pennsylvaníufylki í Bandaríkjunum og BS gráðu í iðnaðarlíffræði frá Tækniháskóla  Georgíufylkis í Atlanta.