Skip Navigation

Framtíð nýsköpunar – ávinningur af samstarfi vísinda og iðnaðar í heilbrigðisvísindum.

Business
23 November 2021

Á dögunum fór fram annar viðburðurinn í fyrirlestraröð Alvotech og Háskóla Íslands um framtíð nýsköpunar. Viðburðurinn fjallaði um ávinning af samstarfi vísinda og iðnaðar í heilbrigðisvísindum og áhugaverðar sögur sagðar af fyrirtækjum sem hafa sprottið úr hugmyndum og rannsóknum innan Háskóla Íslands.

Opnunarávörp fluttu Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra atvinnu- og nýsköpunar.

Þorsteinn Loftsson, prófessor emeritus við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands og annar stofnandi Oculis fór með fyrsta erindi málþingsins. Þorsteinn hefur í áratugaskeið verið einn af fremstu vísindamönnum Háskóla Íslands og fyrstur þeirra til að komast inn á lista yfir áhrifamestu vísindamenn heims. Í erindi sínu fór Þorsteinn yfir langan og merkilegan starfsferil sinn, frá kennslu og rannsóknum til stofnunar á sprotafyrirtækjunum Cyclops, Oculis og Lipid pharmaceuticals.

Aðalheiður Pálmadóttir, VP of Business Development hjá Controlant og Erlendur Brynjúlfsson, CTO og einn stofnenda fyrirtækisins kynntu fyrirtækið, en það býður upp á vöktunarlausnir fyrir lyfja- og matvælafyrirtæki, svo hægt sé að fylgjast með ástandi viðkvæmra sendinga í rauntíma.

Einar Mantyla, framkvæmdastjóri Auðnu tæknitorgs, talaði um hvernig Auðna tengir vísindin við atvinnulífið, aðstoðar við stofnun vísinda sprotafyrirtækja og nýsköpunarferla ásamt því að hjálpa fjárfestum að finna áhugaverð tækifæri.

Tanya Zharov, aðstoðarforstjóri Alvotech hélt erindi um sjálfbæra framtíð í líftækni á Íslandi. Tanya talaði um stefnu Alvotech og hvernig fyrirtækið hefur að markmiði að bæta lífsgæði fólks með betra aðgengi að líftæknilyfjum.

Fundarstjóri var Sigurður Magnús Garðarsson, stjórnarformaður Vísindagarða Háskóla Íslands og forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs.

Hægt er að hlusta á öll erindin í slóðinni hér að neðan.

https://livestream.com/hi/framtidnyskopunar/videos/227242875