Alvotech (NASDAQ: ALVO) tilkynnti í dag að bandaríska eignastýringarfyrirtækið GoldenTree Asset Management hafi boðist til að lækka vexti á langtímaskuldum félagsins í samráði við hóp alþjóðlegra stofnanafjárfesta sem standa að baki lánveitingunum. Vaxtakostnaður Alvotech næstu 12 mánuði lækkar um rúman milljarð króna. Ákvörðun lánveitendanna staðfestir frábæran árangur í rekstri Alvotech og aukna tiltrú á rekstur félagsins.
Alvotech er í dag með flest hliðstæðulyf í þróun í heiminum samkvæmt opinberum upplýsingum. Síðastliðið ár hafa tekjur félagsins vaxið gríðarlega, félagið hefur skilað góðum rekstrarhagnaði og jákvæðri EBITDA-framlegð. Við gerum ráð fyrir að rekstur Alvotech skili jákvæðu sjóðstreymi á árinu 2025 og því er ekki þörf til að fjármagna rekstur félagsins frekar. Vaxtalækkunin sýnir traust þessara reyndu stofnanafjárfesta, sem hafa mikla þekkingu á lyfjaiðnaðinum, á árangri okkar í lyfjaþróun og framtíðaráætlunum félagsins.
Lánasamningurinn var undirritaður í júní 2024 og er með lokagjalddaga í júlí 2029. Upprunalega var um að ræða lán í tveimur hlutum. Annar þeirra, að fjárhæð 900 milljóna bandaríkjadala, bar 6,5% álag á SOFR-millibankavexti og hinn hlutinn, að fjárhæð 65 milljóna bandaríkjadala, bar 10,5% álag á SOFR. Lánveitendurnir hafa nú ákveðið að fella hlutana saman í eitt lán sem mun bera 6,0% álag á SOFR. Lánið nemur nú um 1.081 milljón bandaríkjadala en félagið átti 152 milljónir bandaríkjadala í lausafé þann 25. júní sl.