Skip Navigation

Markaðsleyfi veitt í Japan fyrir þrjár nýjar líftæknilyfjahliðstæður frá Alvotech

Business
19 September 2025

Alvotech (NASDAQ: ALVO, ALVO-SDB) tilkynnti í dag að japanska heilbrigðis-, atvinnu- og velferðarráðuneytið hafi veitt Fuji Pharma Co. Ltd. („Fuji Pharma“), samstarfsaðila Alvotech í Japan, leyfi til markaðssetningar og sölu á þremur nýjum líftæknilyfjahliðstæðum, AVT03, hliðstæðu við Xgeva (denosumab) sem markaðssett er undir heitinu Ranmark í Japan, AVT05, hliðstæðu við Simponi (golimumab) og AVT06, hliðstæðu við Eylea (aflibercept). AVT05 er fyrsta hliðstæðan við Simponi sem hlýtur markaðsleyfi á stærri mörkuðum. 

Við fögnum því að þessar þrjár nýju hliðstæður hafi fengið markaðsleyfi í Japan og að geta fylgt eftir velgengni hliðstæðu okkar við Stelara sem Fuji Pharma setti á markað á síðasta ári. Við erum spennt að auka aðgengi í Japan að þessum mikilvægu lyfjum, mæta sívaxandi eftirspurn eftir hágæða líftæknilyfjum og draga úr kostnaði við meðferð sjúklinga með þráláta sjúkdóma.

Róbert Wessman

Stjórnarformaður og forstjóri

AVT03, sem inniheldur virka efnið denosumab, fær markaðsleyfi til meðferðar við illkynja sjúkdómum sem tengjast beinum. AVT05, sem inniheldur virka efnið golimumab er heimilað til meðferðar við liðagigt. AVT06 sem inniheldur virka efnið aflibercept, er ætlað til meðferðar við votri augnbotnahrörnun (AMD), sjónskerðingu vegna sjóndepilsbjúgs og sjónskerðingu vegna nýæðamyndunar í æðum í tengslum við nærsýni.

Í maí á síðasta ári settu Alvotech og Fuji Pharma fyrstu hliðstæðuna við Stelara (ustekinumab) á markað í Japan. Félögin gengu fyrst til samstarfs í nóvember 2018. Auk þeirra fjögurra hliðstæðna sem nú hafa fengið markaðsleyfi, hefur Alvotech samið við Fuji Pharma um rétt til markaðssetningar í Japan á tveimur fyrirhuguðum hliðstæðum sem eru enn í þróun.