Skip Navigation

Framtíð Nýsköpunar - Samstarf háskóla, vísindasamfélagsins og atvinnulífsins

Business
14 September 2021

Með tilkomu Alvotech og samstarfs þess við Háskóla Ísland hefur tekist að byggja upp nýja þekkingu hér á landi sem opnar mikla möguleika á að fleiri líftæknifyrirtæki vilji starfa hér á landi.

Þetta er meðal þess sem kom fram á málþingi sem Alvotech og Háskóli Íslands, í samstarfi við Aztiq, Sænsk/íslenska viðskiptaráðsins og Vísindagarða Háskóla Íslands stóðu fyrir í dag.

Málþingið er það fyrsta í fyrirlestraröð Alvotech og Háskóla Íslands sem nefnist Framtíð nýsköpunar – Hvernig vísindasamfélagið og atvinnulífið geta skapað verðmæti saman. Fjöldi innlendra og erlendra sérfræðinga tóku til máls á málþinginu og var áherslan að þessu sinni á nýsköpun á sviði líftækni og reynslu af samstarfi háskóla og atvinnulífs á því sviði.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sagði háskólann hafa sett sér það markmið að styrkja frekar við nýsköpun í framtíðinni. Í því skyni gegni Vísindagarðar Háskólans mikilvægu hlutverki. Hann sagði að þekkingariðnaður sem byggður er á nýsköpun og samstarfi fræðasamfélagsins, vísinda, Háskóla og atvinnulífs ætti mikið inni og að þar felist tækifæri til að vaxa enn frekar. Samstarf háskólans og Alvotech hafi nú þegar skilað þekkingu til samfélagsins og frekara samstarf muni styrkja enn frekar við uppbyggingu á sviði líftækni hér á landi.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnu- og nýsköpunarráðherra, benti á að innviðir hér á landi styðji betur við nýsköpun en mörg önnur lönd. Framlög ríkisins til rannsókna og þróunar hafi aukist verulega og útflutningstekjur sem byggðar eru á þekkingariðnaði hafi meira en tvöfaldast frá 2013.

Fram kom í máli Róberts Wessman að það hafi verið tekið meðvituð ákvörðun árið 2012 um að byggja upp líftæknifyrirtæki hér á landi ári þrátt fyrir að þá hafi verið vitað að það tæki 10 ár og myndi kosta um það vil 100 milljarða króna. Alvotech sé nú tilbúið til að hefja framleiðslu og sölu á líftæknilyfja hliðstæðum um leið og einkaleyfi renni út á næsta ári. Fyrirtækið sé búið að tryggja sér aðgang að öllum helstu mörkuðum heims og öll lyfin verða framleidd á Íslandi sem þýðir auknar tekjur fyrir þjóðarbúið. Þá hafi verið erfitt að finna íslenska sérfræðinga á sviði líftækni í upphafi en nú sé að verða til þekking hér á landi sem opnar á þann möguleika að önnur fyrirtæki á sviði líftækni vilji starfa hér á landi.

Einnig ávörpuðu ráðstefnuna þau Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, Lars Lannfelt, prófessor við Uppsalaháskóla og Eugen Steiner, fjárfestir.