Skip Navigation

Mikil umframeftirspurn alþjóðlegra fjárfesta í útboði Alvotech á breytanlegum skuldabréfum að fjárhæð 108 milljónir dollara

Business
17 December 2025

Alvotech (NASDAQ: ALVO, ALVO SDB) tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði selt breytanleg skuldabréf að fjárhæð 108 milljónir bandaríkjadala til hóps um 20 alþjóðlegra fjárfesta í lokuðu útboði. Mikil umframeftirspurn var eftir bréfum í útboðinu. Fjármögnunin styður við fjárfestingu félagsins í þróun nýrra hliðstæðna líftæknilyfja, sem áætlað er að verði um 250 milljónir bandaríkjadala á næsta ári. Félagið er nú að þróa 30 hliðstæður líftæknilyfja og hefur byggt upp verðmætasta safn fyrirhugaðra hliðstæðna í lyfjaiðnaðinum. Þá er Alvotech að auka framleiðslu og styrkja aðfangakeðju sína, þar sem 4 nýjar hliðstæður eru á leið á markað á þessu og næsta ári.

Með fjármögnuninni getur Alvotech tryggt forskot í þróun nýrra líftæknilyfjahliðstæðna og haldið áfram að efla framleiðslu og markaðssetningu á alþjóðlegum mörkuðum.

Við fögnum þessari niðurstöðu og mikilli umframeftirspurn alþjóðlegra fjárfesta í útboðinu. Þessi eftirspurn lýsir trausti fjárfestanna á viðskiptaáætlunum Alvotech og framtíðarhorfum félagsins, ásamt jákvæðu mati á þeim miklu verðmætum sem fólgin eru í þeirri fullkomnu aðstöðu til framleiðslu og þróunar sem við höfum byggt upp á undanförnum árum hér á Íslandi. Með þessari fjármögnun getum við ótrauð haldið áfram að þróa verðmætasta safn nýrra hliðstæðna í lyfjaiðnaðinum og markaðssetningu um allan heim, til að bæta aðgengi sjúklinga að hágæða líftæknilyfjum.

Róbert Wessman

Stjórnarformaður og forstjóri Alvotech

Niðurstaða útboðsins

Hér er fjallað um helstu atriði en nánar er fjallað um skilmála skuldabréfanna í enskri útgáfu tilkynningarinnar.

  • Tekið var á móti tilboðum frá fjárfestum í breytanleg skuldabréf að fjárhæð 108 milljónir bandaríkjadala með lokagjalddaga 22. desember 2030. Þrátt fyrir að mikil umframeftispurn væri eftir bréfum í útboðinu var skuldabréfunum ráðstafað að teknu tilliti til samsetningar fjárfestahópsins.
  • Bréfin bera 6,875% vexti og eru með gjalddaga á sex mánaða fresti. Nafnverð hvers skuldabréfs verður 200.000 bandaríkjadalir.
  • Viðmiðunargengi vegna breytiréttar bréfanna er með 25% álagi á gengi hlutabréfa sem seld voru í samhliða viðskiptum (Concurrent Delta Placement). Viðmiðunargengið er því 5,9224 bandaríkjadalir á hlut.
  • Bréfin verða með breytirétti yfir í sænsk heimildarskírteini (SDR), sem eru ígildi hlutabréfa og virkjast rétturinn 41 degi eftir útgáfu bréfanna.
  • Félagið hefur rétt til að innkalla breytanlegu skuldabréfin þegar 3 ár og 21 dagur eru liðin frá því að skuldabréfin eru afhent fjárfestum, ef magnvegið gengi (WVAP) hlutabréfa félagsins á markaði er að minnsta kosti 150% yfir viðmiðunargenginu í 20 viðskiptadaga samfellt á 30 daga tímabili.
  • Alvotech Manco ehf., dótturfélag Alvotech, mun lána kaupendum breytanlegu skuldabréfanna hlutabréf í félaginu, sem þeir geta selt á markaði til þess að verjast markaðsáhættu.
  • Umsjónaraðili útboðsins hafði milligöngu um sölu hlutabréfanna sem fjárfestar tóku að láni frá Alvotech Manco ehf. til að verjast markaðsáhættu, en heildarfjöldi þeirra ákvarðaðist af úthlutun skuldabréfanna. Alls nam verðmæti hlutabréfanna um 56 milljónum bandaríkjadala. Hlutabréfin voru seld með 10% afslætti frá lokagengi bréfa á Nasdaq-markaðnum í Stokkhólmi í gær 16. desember, sem var 48,95 sænskar krónur, jafngildi 4,7379 bandaríkjadala á hlut.
  • Alvotech hefur skuldbundið sig til að gefa ekki út ný hlutabréf á næstu þremur mánuðum eða önnur verðbréf með tengingu við hlutabréf í tólf mánuði eftir að afhendingu breytanlegu skuldabréfanna er lokið. Undantekingar frá þessari reglu eru útgáfa bréfa til Alvotech Manco, til þess að standa við áður gefnar skuldbindingar, þar á meðal vegna útlána á hlutabréfum til kaupenda breytanlegu skuldabréfanna.

Tímalína í viðskiptunum

  • 17. desember: Viðskiptadagur (T)
  • 19. desember nk.: (T+2) Greiðsla fyrir hlutabréfin í viðskiptunum
  • 22. desember nk.: (T+3) Greiðsla fyrir breytanlegu skuldabréfin í viðskiptunum

Ráðgjafar

DNB Carnegie, sem er hluti af DNB Bank ASA er umsjónaraðili útboðsins. Roschier var lögfræðilegur ráðgjafi Alvotech varðandi sænsk lög, Arendt & Medernach SA varðandi lúxemborgísk lög, BBA//Fjeldco varðandi íslensk lög og Cooley LLP varðandi bandarísk lög. Advokatfirmaet Thommessen AS er lögfræðilegur ráðgjafi DNB Carnegie varðandi norsk lög.