Skip Navigation

Skóflustungur teknar að stækkun hátækniseturs Alvotech

Business
30 December 2020

Í dag voru fyrstu skóflustungurnar teknar að viðbyggingu við hátæknisetur líftæknifyrirtækisins Alvotech í Vatnsmýri í Reykjavík. Viðbyggingin, sem er hluti af Vísindagörðum Háskóla Íslands, nær tvöfaldar aðstöðu Alvotech þar.

Róbert Wessman, stjórnarformaður fyrirtækisins, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands tóku skóflustungurnar ásamt lykilstarfsmönnum sem komið hafa að verkefninu samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu.

Ráðgert er að viðbyggingin verði 12.500 fermetrar að stærð og áætlað að byggingin verði tilbúin í lok árs 2022. Kostnaður vegna verkefnisins er um tíu milljarðar króna samkvæmt upplýsingum frá Alvotech.

Þar verður að finna aðstoðu til lyfjaþróunar og áfyllingar lyfja, skrifstofur og vöruhús. Fyrirtækið mun einnig veita líftæknisviði HÍ aðstöðu og halda þar með áfram samstarfi við háskólann, sem gerir skólanum kleift að efla enn frekar meistaranám í iðnaðarlíftækni og þar með fá fleiri nemar tækifæri til að stunda starfsnám hjá fyrirtækinu.

Ráðgert er að starfsmönnum Alvotech hér á landi fjölgi úr 410 í um það bil 580 þegar hátæknisetrið verður tilbúið. Hið nýja starfsfólk verður að mestu leyti sérfræðingar með háskólamenntun.

„Það er einstaklega ánægjulegt að ljúka þessu erfiða ári sem einkenndist af baráttunni við Covid-19 veiruna, með svona jákvæðu skrefi til framtíðaruppbyggingar fyrirtækisins,“ sagði Róbert Wessman, stjórnarformaður Alvotech er fyrstu skóflustungurnar voru teknar og þakkaði stjórnendum Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands og Vísindagarða fyrir samstarfið við verkefnið.