Skip Navigation

Teva og Alvotech auka við samstarf sitt um þróun, framleiðslu og markaðssetningu

Business
24 July 2023

Alvotech (NASDAQ: ALVO) og Teva Pharmaceuticals, bandarískt dótturfélag Teva Pharmaceutical Industries Ltd. (NYSE og TASE: TEVA) tilkynntu í dag um aukið samstarf á sviði þróunar, framleiðslu og markaðssetningar á líftæknilyfjahliðstæðum. Jafnframt hefur Teva ákveðið að fjárfesta í víkjandi skuldabréfum Alvotech með breytirétti í hlutabréf.

Samstarfsaðilarnir halda áfram að vinna náið að því að tryggja markaðsleyfi í Bandaríkjunum fyrir AVT02, fyrirhugaða líftæknilyfjahliðstæðu með útskiptileika við Humira í háum styrk (adalimumab). Núverandi samstarf félaganna nær einnig til fjögurra annarra líftæknilyfjahliðstæða. Þar á meðal er AVT04, fyrirhuguð líftæknilyfjahliðstæða við Stelara (ustekinumab). Umsókn um markaðsleyfi í Bandaríkjunum fyrir AVT04 liggur nú fyrir Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA) til samþykktar.

Samkomulag félaganna um aukið samstarf nær til tveggja nýrra líftæknilyfjahliðstæða auk nýrra lyfjaforma af tveimur fyrirhuguðum líftæknilyfjahliðstæðum sem voru hluti af gildandi samstarfssamningi. Lyfin verða þróuð og framleidd af Alvotech, en Teva sér um markaðssetningu og sölu í Bandaríkjunum. Samkomulagið tryggir Alvotech áfangagreiðslur, sem eiga að greiðast þegar markaðsleyfi lyfs liggur fyrir og þegar ákveðnum tekjumarkmiðum er náð fyrir hvert lyf. Þá deila félögin hagnaði af sölu lyfjanna.

Samkomulagið felur einnig í sér aukna þátttöku Teva í undirbúningi fyrir væntanlega úttekt FDA á framleiðsluaðstöðu Alvotech, og er starfsfólk Teva til staðar til að veita ráðgjöf varðandi gæðaeftirlit og framleiðslu.

Teva hefur ákveðið að fjárfesta í víkjandi skuldabréfum Alvotech með breytirétti í hlutabréf, að andvirði 5,2 milljarðar króna miðað við núverandi gengi (40 milljónir Bandaríkjadollara). Fjárfesting Teva verður nýtt af Alvotech til áframhaldandi lyfjaþróunar.

Við fögnum þessu aukna samstarfi félaganna. Við vinnum markvisst að undirbúningi til að tryggja farsæla niðurstöðu úr úttekt FDA og erum að klára að leysa úr öllum athugasemdum sem fram komu frá eftirlitinu. Markmiðiðið er að koma líftæknilyfjahliðstæðum okkar sem fyrst í hendur sjúklinga í Bandaríkjunum.

Róbert Wessman

Stjórnarformaður og forstjóri Alvotech

Markmið Teva er að vera leiðandi á markaði fyrir líftæknilyfjahliðstæður og við leggjum sem fyrr áherslu á samstarfið við Alvotech. Við erum bjartsýn á horfur fyrir nýju lyfin í samstarfinu og að þróun AVT02 og AVT04 muni skila góðum árangri.

Sven Dethlefs

Framkvæmdastjóri viðskipta fyrir Teva í Norður-Ameríku