Skip Navigation

Uppfærður samningur við Landsbankann um viðskiptavakt á hlutabréfum Alvotech á Nasdaq Iceland markaðnum

Business
14 February 2023

Alvotech (NASDAQ: ALVO) tilkynnti í dag að samningur við Landsbankann hf. um viðskiptavakt á hlutabréfum Alvotech hafi verið uppfærður, en Landsbankinn hefur séð um viðskiptavakt á hlutabréfunum síðan þau voru tekin til viðskipta 23. júní 2022. Nýr samningur gengur í gildi við upphaf viðskipta 15. febrúar n.k.

Samkvæmt samningnum gefur Landsbankinn út virk kaup og sölutilboð fyrir ALVO hlutabréf á Nasdaq Iceland markaðnum, fyrir ákveðna lágmarksfjárhæð með föstu bili milli kaup og söluverðs.

Landsbankinn mun nú birta kaup- og sölutilboð að fjárhæð 10 milljónir króna hið minnsta, en upphæðin var áður 5 milljónir króna. Hámarksfjárhæð daglegrar skuldbindingar Landsbankans í viðskiptum með hlutabréf Alvotech, það er mismunur heildarverðmætis allra samþykktra sölutilboða og heildarverðmætis allra samþykktra kauptilboða, hækkar úr 10 milljónum króna á dag í 20 milljónir króna á dag. Hámarks magnvegið verðbil á milli kaup- og sölutilboða á viðskiptavaktinni helst óbreytt og er miðað við verðflökt hlutabréfanna yfir 10 síðustu viðskiptadaga: 1,5% ef 10 daga flökt er 20% eða lægra, 2,5% ef flöktið er milli 20-35% og 4% ef það fer yfir 35%.