Skip Navigation

Viðskipti með hlutabréf Alvotech hefjast á NASDAQ markaðnum í Bandaríkjunum undir auðkenninu ALVO

Business
15 June 2022
  • Skráningin með hlutabréf Alvotech til viðskipta í NASDAQ kauphöllinni í New York hefur tekið gildi að loknum samruna við sérhæfða yfirtökufélagið Oaktree Acquisition Corp II.
  • Innlendir og alþjóðlegir fjárfestar taka jafnframt þátt í hlutafjáraukningu að andvirði 22,7 milljarða króna á genginu 10 Bandaríkjadalir fyrir hvern hlut.
  • Alvotech vinnur að því að auka aðgengi sjúklinga að ódýrari líftæknilyfjum með framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja sem geta dregið úr kostnaði við rekstur heilbrigðiskerfa um allan heim.
  • Með skráningu hlutabréfanna á hlutabréfamarkað gefst fjárfestum kostur á beinni fjárfestingu í fyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja.
  • Alvotech verður eina íslenska fyrirtækið skráð á bandarískan markað og fyrsta íslenska fyrirtækið skráð bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum.

Hlutabréf Alvotech verða tekin til viðskipta í NASDAQ kauphöllinni í New York fimmtudaginn 16. júní 2022. Bréfin verða skráð undir auðkenninu ALVO og áskriftarréttindi undir auðkenninu ALVOW. Lokið er samruna Alvotech við sérhæfða yfirtökufélagið Oaktree Acquisition Corp. II („OACB“), sem stofnað var af dótturfélagi Oaktree Capital Management, L.P. („Oaktree“). Við samrunann, sem samþykktur var af hluthöfum OACB 7. júní 2022, varð til sérhæft alþjóðlegt fyrirtæki sem skráð er á markað og einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja, en það er sá geiri lyfjamarkaða um allan heim sem er í einna örustum vexti.

Við upphaf viðskipta er gert ráð fyrir að Alvotech verði eina íslenska fyrirtækið sem skráð er á markað í Bandaríkjunum. Jafnframt er stefnt að því að bréf í Alvotech verði tekin til viðskipta á NASDAQ First North Growth markaðnum í Reykjavík frá og með 23. júní 2022, en það yrði í fyrsta sinn sem bréf í íslensku fyrirtæki eru skráð samtímis til viðskipta í á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum og á Íslandi.

Skráning á markað er söguleg stund í vaxtarferli Alvotech. Við teljum að með þessu skrefi náum við að efla stöðu okkar á markaði fyrir líftæknihliðstæðulyf og veita samstarfaðilum okkar og sjúklingum um allan heim enn betri þjónustu.

Róbert Wessman

Stofnandi og stjórnarformaður Alvotech

Oaktree er afar stolt af því að vinna með Alvotech, sem hefur byggt upp aðstöðu á heimsmælikvarða og einbeitir sér að því mikilvæga verkefni að auka framboð af bráðnauðsynlegum lyfjum með lægri tilkostnaði. Við lítum björtum augum á áframhaldandi samstarf við Alvotech, sem nú eykur umsvif sín enn frekar.

Howard Marks

Einn af stofnendum og stjórnarformönnum Oaktree

Frá stofnun fyrirtækisins fyrir áratug, hefur Alvotech byggt upp sérhæfða hátæknimiðstöð með allri aðstöðu á einni hendi til þróunar- og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja á stórum skala. Líftæknihliðstæðulyf hafa sömu klínísku virkni og líftæknilyf, sem hafa reynst vel til meðferðar við fjölda sjúkdóma og eru sá hluti lyfjamarkaðarins sem vex einna hraðast. Kostnaður við líftæknilyf er um 40% af heildarútgjöldum vegna lyfja í Bandaríkjunum og um 30% í Evrópu, miðað við listaverð. Alvotech þróar átta líftæknihliðstæður, sem geta nýst til meðferðar við fjölda sjúkdóma. Markaður fyrir viðmiðunarlyf þessara hliðstæða er áætlaður rúmlega 11.050 milljarðar króna (85 milljarðar Bandaríkjadala), á ári.

Fyrsta vara Alvotech á markaði er AVT02 (adalimumab), líftæknilyfjahliðstæða við Humira®. Sala og dreifing er hafin í Kanada og Evrópu og er gert ráð fyrr að hún hefjist í Bandaríkjunum 1. júlí 2023. Á Bandaríkjamarkaði hefur fyrirtækið sótt um að lyfið verði skráð með útskiptanleika, þannig að sjúklingar geti fengið lyf Alvotech í stað frumlyfsins án þess að læknirinn sem ávísar lyfinu þurfi að taka þá ákvörðun sérstaklega. Bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið (FDA) tók umsóknina til greina á síðasta ári. Nýlega kynnti fyrirtækið einnig niðurstöður klínískrar rannsóknar og rannsóknar á lyfjamörkum AVT04 (ustekinumab), sem er líftæknilyfjahliðstæða við Stelara®.

Til að ná fótfestu á öllum helstu markaðssvæðum, hefur Alvotech gert samninga við samstarfsaðila með ráðandi stöðu og sérþekkingu á einstökum mörkuðum. Þar á meðal er Teva Pharmaceuticals, bandarískt dótturfyrirtæki Teva Pharmaceuticals Industries Ltd. (skráð í NYSE og TASE kauphöllunum sem TEVA), sem sinnir markaðssetningu í Bandaríkjunum, STADA Arzneimittel AG í Evrópu og Fuji Pharma Co., Ltd (skráð á TSE í London sem 4554) í Japan.

Í skráningarferlinu aflaði Alvotech nýs hlutafjár að verðmæti 22,7 milljarða króna (175 milljóna Bandaríkjadala) frá innlendumog alþjóðlegum fjárfestum, gegn útgáfu almennra hluta á genginu 10 Bandaríkjadalir. Meðal þátttakenda í hlutafjáraukningunni voru Suvretta Capital, Athos (fjárfestingarfélag Strüngmann fjölskyldunnar), CVC Capital Partners, Temasek Holdings, YAS Holdings, Farallon Capital Management og Sculptor Capital Management.

Til að fagna skráningu hlutabréfa fyrirtækisins í New York, mun Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech, hringja bjöllunni til að opna NASDAQ markaðinn þann 16. júní 2022. Bein útsending frá athöfninni hefst kl. 13:20, að íslenskum tíma þann 16. júní frá höfuðstöðvum Nasdaq í New York. Hægt verður að fylgjast með beinu streymi frá atburðinum á slóðinni: https://livestream.com/accounts/27896496/events/10423230.

Um AVT02 (adalimumab)
AVT02 er einstofna mótefni og líftæknilyfjahliðstæða við Humira® (adalimumab). AVT02 hefur hlotið markaðsleyfi í Evrópu (Hukyndra®) og Kanada (Simlandi™). Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) hefur samþykkt að taka umsókn Alvotech um markaðsleyfi fyrir AVT02 til umsagnar og bíður afgreiðsla hennar niðurstöðu úttektar á aðstöðu fyrirtækisins.

Um AVT04 (ustekinumab)
AVT04 er einstofna mótefni og líftæknilyfjahliðstæða við Stelara® (ustekinumab). AVT04 var þróað í Sp2/0 frumulínu. Við framleiðsluna er beitt stöðugri gegnumflæðisaðferð (e. continuous perfusion process). Ustekinumab binst tveimur frumuboðefnum í ónæmiskerfinu, IL-12 og IL-23. Þannig hefur það klíníska verkun á psoriasis, psoriasis liðagigt, Crohns sjúkdóminn og sáraristilbólgu með því að trufla leiðir frumuboðefna sem eru meginþættir í meinafræði þessara sjúkdóma.